Randulffssjóhús – Matsölustaður

Randulffssjóhús er í eigu Sjóminjasafns Austurlands en Ferðaþjónustan á Mjóeyri sér um rekstur þess. Húsið var byggt um 1890 og var lengst notað sem síldarsjóhús en síðan Sjóminjasafnið eignaðist það hefur það tengst safnastarfi safnsins.

Sjóhúsið var í fyrsta sinn opnað almenningi árið 2008. Búið er að koma upp gestamóttöku í sjóhúsinu og þaðan er bátaleiga Mjóeyrar gerð út. Húsið hefur verið endurnýjað að hluta og telst ástand þess mjög gott. Auk gestamóttöku og þjónustumiðstöðvar bátaleigunnar er það rekið sem matsölustaður á sumrin ásamt því sem hluti hússins er nýttur til sýningarhalds á hlutum sem tengdir eru sjóhúsinu og þeirri starfsemi sem þar hefur verið í gegn um tíðina.

Á sumrin er matsölustaðurinn opinn frá kl 17.00-21.00 en húsið opið til 23.00.
Við kappkostum okkur við að bjóða aðallega upp á austfirskar krásir af matseðli s.s hreindýr, hákarl, harðfisk og ferskar fiskikrásir beit úr firðinum. Einnig er boðið upp á veislur og veitingar fyrir hópa. Salurinn tekur um 80 manns í sæti.

Á efri hæð hússins er verbúð síldarsjómannana í sinni upprunalegu mynd þar sem gestum gefst tækifæri til að kynna sér aðstæður sjó- og verkamanna hér á árum áður.

Þar sem bátaleigan okkar er einnig í húsinu gefst fólki kostur á að leigja sér bát og stöng og koma með aflann í land. Við getum svo hjálpað til að gera að aflanum og matreitt fyrir fólk ef óskað er eftir því. Þetta er mjög vinsælt hjá útlendingum sem fara kannski 1 klukkutíma á sjó, veiða 2-3 fiska fara svo í sund og þegar þeir koma til baka er fiskurinn þeirra tilbúinn til framreiðslu.

Stemmingin er öðruvísi og ómissandi hluti af heimsókn til Eskifjarðar. Hvað er skemmtilegra en að kynna sér útgerðarmenningu fiskiþorps eins og Eskifjarðar með því að skoða gamalt sjóhús í sinni upprunalegu mynd, fara á sjó, veiða fisk og svo ef til vill grilla aflann þegar komið er að landi.

Randulffssjóhús hjá Húsafriðunarnefnd